Skjalavefur

Hér eru birt afrit opinberra skjala er varða Kópavog. Annars vegar þau er hafa nokkra almenna stjórnsýslulega þýðingu fyrir Kópavog, hins vegar þau er til almenns gagns og gleði horfa. Skýringar, samanteknar af starfsmönnum Héraðsskjalasafns Kópavogs, eru látnar fylgja til að stuðla að skilningi á eðli og samhengi skjalanna.

Stofn- og stjórnskjöl

Hér er um að ræða lög um sveitarstjórn er gilt hafa um Kópavogshrepp og Kópavogsbæ og reglur og samþykktir er lúta að yfirstjórn sveitarfélagsins.

Tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi og sveitarstjórnarlög til ársins 1955

Með hreppstjórainstrúxinu 1809 var sjálfstjórn íslenskra sveitarfélaga afnumin og sett undir ríkisstarfsmenn þ.e. sýslumannsskipaða hreppstjóra. Sjálfstjórn sveitarfélaga komst aftur á með tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi 1872. Svæðið sem nú er Kópavogsbær var frá fornu fari í Seltjarnarneshreppi. Stóð það til ársins 1948 er Kópavogshreppur var stofnaður. Um svæðið giltu sveitarstjórnarlög allt til þess er hreppurinn varð að kaupstað 1955.

Tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi nr. 49/1872
Sveitarstjórnarlög nr. 43/1905
Sveitarstjórnarlög nr. 12/1927

Tilkynning félagsmálaráðherra um stofnun Kópavogshrepps

Sérstakt sveitarfélag við Kópavog og Fossvog kom til sögunnar með þessu bréfi. Með því var skipt í tvennt því sem eftir stóð af Seltjarnarneshreppi hinum forna. Reykjavíkurkaupstaður stóð á hinum hluta hins forna hrepps. Tvískiptingin var ákveðin í framhaldi af kosningum í Seltjarnarneshreppi 1946 en í þeim náði Framfarafélagið Kópavogur, þverpólitísk samtök Kópavogsbúa, meirihluta í hreppsnefndinni.

161/1948 Bréf félagsmálaráðuneytisins til sýslumannsins í Kjósarsýslu, um skiptingu Seltjarnarneshrepps í tvö hreppsfélög.

Lög um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað 1955

Kópavogshreppur varð kaupstaður 11. maí 1955 með þessum lögum í framhaldi af kosningum

Orðið sveitarfélag þýddi upphaflega hreppsfélag og einskorðaðist við það frá því að sjálfstjórn þeirra komst á að nýju með tilskipun 1872 og allt til ársins 1961.  Um Kópavogshrepp 1948-1955 giltu lög um sveitarstjórnir. Áður var landsvæðið hluti Seltjarnarneshrepps.
Með gildistöku laga 
nr. 30/1955 um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað hætti Kópavogur að teljast sveitarfélag og varð kaupstaður.

Kaupstaðir komu til sögunnar á Íslandi með Tilskipun um fríheit kaupstaðanna á Íslandi 17. nóvember 1786. Árið 1836 voru öll kaupstaðarréttindi aflögð utan Reykjavíkur. Það sama ár var sett instrúx eða erindisbréf bæjarfulltrúa í Reykjavík. Tíu árum síðar var það leyst af hólmi með reglugjörð um stjórn bæjarmálefna í kaupstaðnum Reykjavík (27. nóvember 1846). Tilskipun um bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík tók svo við 20. apríl 1872, sett á grundvelli frumvarps bæjarstjórnar Reykjavíkur sem hafði til hliðsjónar lög um stjórn bæjarmálefna í kaupstöðum í Danmörku. Það form að kveða á um bæjarmálefni hvers kaupstaðar sérstaklega með lögum festist svo í sessi með lögum nr. 22/1883 um bæjarstjórn á Akureyri og nr. 23/1883 um bæjarstjórn á Ísafirði. Lög um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað eru yngst slíkra laga sem sett voru.

Sveitarstjórnarlög sem tóku jafnt til sveita (hreppa) og kaupstaða voru sett með sveitarstjórnarlögum nr. 58/1961 og tóku gildi 1. janúar 1962. Þau leystu af hólmi flest ákvæði sérlaga um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað eins og annarra sérlaga um aðra kaupstaði.

Lög nr. 30/1955 um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað.

Bæjarmálasamþykktir Kópavogs

Bæjarmálasamþykktir hafa tíðkast um kaupstaði og bæjarfélög á Íslandi frá því fyrst var sett samþykkt um stjórn bæjarmálefna í Reykjavík 9. október 1872. Fyrsta bæjarmálasamþykkt Kópavogs byggist á lögum nr. 30/1955 um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað, en eftir setningu sveitarstjórnarlaga nr. 58/1961 eru bæjarmálasamþykktirnar grundvallaðar á gildandi sveitarstjórnarlögum.


Í bæjarmálasamþykktum koma stjórnhættir bæjarins fram m.a. hvaða nefndir, stjórnir og ráð eru kjörin, ábyrgðarsvið þeirra skilgreint og fjöldi fulltrúa sem í þeim sitja.