Saga stofunnar

Náttúrufræðistofa Kópavogs var opnuð í desember 1983.

Hlutverk Náttúrufræðistofunnar er að safna, varðveita og sýna náttúrugripi, standa að fræðslu og rannsóknum í náttúrufræðum og stuðla að náttúru- og umhverfisvernd. Árni Waag var ráðinn fyrsti forstöðumaður stofunnar og gegndi því starfi til ársins 1992 þegar Hilmar J. Malmquist tók við. Hilmar gegndi þeirri stöðu til 2014, en núverandi forstöðumaður er Finnur Ingimarsson. 

Tilurð Náttúrufræðistofu Kópavogs má rekja til kaupa Kópavogsbæjar á skeldýrasafni Jóns Bogasonar en hann hafði um langt skeið safnað skeldýrum meðfram störfum sínum sem rannsóknamaður hjá Hafrannsóknastofnun. Er þetta skeldýrasafn einn kjarni í náttúrugripasafni Náttúrufræðistofunnar. Á tímum Árna Waag myndaðist einnig töluvert fuglasafn og á síðustu árum hefur einnig orðið til gott safn af berg- og steintegundum. Frá upphafi hefur Kópavogsbær staðið að rekstri stofunnar en hún hefur einnig aflað verulegra sértekna með útseldum verkefnum.

Í maí 2002 fluttist Náttúrufræðistofa Kópavogs í nýbyggt safnahús að Hamraborg 6a og deilir því með Bókasafni Kópavogs. Húsið er sambyggt Salnum í Kópavogi, við hlið Gerðarsafns. Staðsetningin er sérlega góð m.t.t. almenningssamgangna, en aðeins eru fáein skref að skiptistöðinni við Hamraborg. 

Húsnæði Náttúrufræðistofunnar er hið fyrsta á landinu sem er hannað frá grunni fyrir náttúrufræðisafn og gerbreytti sýningaraðstöðu á safnmunum og stórbætti möguleika á allri þjónustu. Rannsókna- og vinnuaðstaða fyrir starfsmenn er mjög góð og sama er að segja um aðstöðu til að taka á móti hópum og skólafólki, til dæmis vegna kennslu í náttúrufræðum. 

Rannsóknir eru stór hluti af starfsemi Náttúrufræðistofunnar og eru þær einkum á sviði vatnavistfræði. Verkefnin hafa verið af öllum stærðum, stundum í samvinnu við aðrar rannsóknarstofnanir bæði innanlands og utan. Sum verkefni hafa verið unnin fyrir eigin reikning en önnur hafa hlotið styrki s.s. frá Rannís, ESB og Norrænu ráðherranefndinni. Einnig hefur verið nokkuð um útseld verkefni m.a. í tengslum við vatnaflokkun, mat á umhverfisáhrifum og skipulagsmál sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

 

Þjónusta

Starfsfólk stofunnar sinnir leiðsögn um náttúrugripasafnið sé þess óskað og reynir af fremsta megni að aðlaga leiðsögn að aldri, áhugasviði og tungumáli gesta. Leiðsögn er hluti af  þjónustu safnsins við gesti sína og er ókeypis. Ráðlegt er að panta leiðsögn með fyrirvara, sérstaklega ef um hópa er að ræða.

Fyrirspurnir frá almenningi hafa ætíð sett svip á starfsemi stofunnar og er fólk hvatt til að setja sig í samband við okkur hafi það spurningar um náttúrufræðileg málefni. Algengast er að fyrirspurnir snúi að smádýrum og pöddum en einnig eru spruningar um fugla all tíðar. Auk fyrirspurna gerum við okkar besta til að greina eintök sem okkur berast og er slík þjónusta ókeypis fyrir almenning.

Safnið er heppilegt til kennslu og hafa kennarar á flestum skólastigum nýtt sér það, m.a. til margvíslegrar verkefnavinnu eða með því að fá sértæka umfjöllum um afmörkuð áhersluefni s.s. sjófugla eða hvali. Safnið hefur oft verið meðal fyrstu viðkomustaða erlendra skólahópa og hefur sú kynning sem þeir fá gjarna miðast að því að veita þeim grunnþekkingu á íslenskri náttúru sem þeir hafa svo byggt ofaná á ferðum sínum um landið.

Á undanförnum árum hafa þjónustuverkefni fyrir stofnanir, sveitarfélög og framkvæmdaraðila verið nokkuð fyrirferðarmikill þáttur í starfsemi stofunnar. Þar hefur aðallega verið um að ræða lífríkisrannsóknir í ferskvatni, m.a. í tengslum við umhverfismat. Niðurstöðum allnokkurra slíkra verkefna eru gerð skil undir efnisflokknum „útgefið efni“ hér að ofan.

Fundir og ráðstefnur

Starfsfólk Náttúrufræðistofu Kópavogs leitast við að sækja fundi og ráðstefnur sem tengjast starfsemi stofunnar, bæði innanlands og utan. Þátttaka í ráðstefnum víkkar sjóndeildarhringinn og persónuleg kynni takast með fólki sem vinnur að tengdum verkefnum. Þá virka þær afkastakvetjandi þar sem menn vilja jú helst hafa eitthvað nýtt fram að færa.

Starfsfólk stofunnar hefur einnig margoft flutt erindi á fundum félaga og áhugamannasamtaka s.s. veiðifélaga. Reynt er af fremsta megni að verða við beiðnum um slik erindi.

Hér að neðan er getið helstu viðburða af þessu tagi þar sem starfsfólk Náttúrufræðistofunnar hefur verið meðal þátttakenda.