Brynjólfur Þorsteinsson

1. sæti

Gormánuður

allir hrafnar eru gat
líka þessi sem krunkar
uppi á ljósastaur

eins og brot
í himingrárri tönn

sjóndeildarhringurinn nakin tré
skorpin vör

pírðu augun
einblíndu á fjaðursortann

það glittir í úf

allir hrafnar eru gat
og innvolsið uppdráttur að morgundegi

líka í þessum sem krunkar
uppi á ljósastaur

lestu hann
með vasahníf og opinn munn

hjartað springur
eins og ber undir tönn

bragðið er svart

Margrét Lóa Jónsdóttir

2. sæti

ALLT SEM LIFIR DEYR

tregasöngur gufu sem stígur upp úr hver

meðan sólin þrýstir glóandi tungubroddi ofan í gjótu

við dönsum kringum sjálf okkur einsog skýhnoðrar í golu

holdi klæddur ófullkomleiki undir margföldu lagi af umbúðum

allt sem lifir deyr

hlátur sem gefur til kynna að bernskudraumur sé í þann veginn að rætast

grátur sem kemur upp um óslökkvandi þrá eftir samúð

þögnin sér um að ramma inn myndir af sigrum okkar og ósigrum

mistökum okkar jafnt sem góðverkum – þögnin

hanskaklædd einsog forvörður sem tekist hefur að hreinsa burt

myglu og óhreinindi af ómetanlegu listaverki

allt sem lifir deyr

samvera sem minnir á krukku fulla af lukkumiðum

borgir sem vaka allan sólarhringinn – rándýr sem njótast (og stundum

langar ekkert okkar heim)

kirkja sem er í laginu einsog sæljón horfir til vesturs

höggmynd sem er nýbúin að nema land tekur ferðamönnum

fagnandi og á nóttunni syngja vindar í styttugarði hetjuljóð

í dögun mætir okkur garðhlið þar sem trjálauf ærslast í sólskini

líkt og glitrandi perluhengi – skilrúm milli lifenda og dauðra

minningar erfast muldra veggir sem fylgjast með samanfléttuðum líkömum

klukknahljómar smjúga gegnum skráargöt – brjóta sér leið gegnum steinsteypu

rúðugler og timbur á meðan náttmyrkrið gælir við augasteina okkar og tunglið

fylgist með líkt og alsjáandi auga guðs

– allt sem lifir deyr

3. sæti